Jan Guillou var njósnari KGB

Jan Guillou skrifaði nósnasögur og var sjálfur njósnari.
Jan Guillou skrifaði nósnasögur og var sjálfur njósnari.

Sænski spennusagnahöfundurinn og fyrrum blaðamaðurinn Jan Guillou veitti  KGB, leyniþjónustu Sovétríkjanna, upplýsingar um fimm ára skeið, að því er sænska blaðið Expressen hefur upplýst. Guillou gerir lítið úr ferli sínum sem njósnari. Formaður sænskra jafnaðarmanna krefst þess að Guillou leggi spilin á borðið.

Oleg Gordievskij, sem stakk af úr þjónustu KGB, hefur lýst því hvernig forn vinur hans og kollegi Jevgenij Gergei náði Jan Guillou á band KGB. Gordievskij segir að Guillou hafi verið stýrt beint frá Moskvu. Guillou var þá ungur blaðamaður og þótti fengur að því að fá þá á mála KGB.

Jan Guillou gerir lítið úr þjónustu sinni við KGB og segir að leynifundir hans með Jevgenij Gergei hafi verið „ekki fréttir“. Gordievskij segir það vera dæmigerð viðbrögð njósnara sem eru afhjúpaðir. Gordievskij telur þvert á móti að Guillou hafi verið mikill fengur fyrir Jevgenij Gergei, sem hafi haft tvo eða þrjá njósnara á sínum snærum í Svíþjóð.

Mona Sahlin, formaður sænskra jafnaðarmanna, hefur krafist þess að Guillou leggi nú öll spilin á borðið. Hann verði að upplýsa hvaða upplýsingar hann veitti Sovétmönnum um sænska jafnaðarmenn. 

Þekktasta söguhetja Jans Guillou er Hamilton greifi, eins konar sænskur James Bond. Höfundurinn virðist því hafa haft betri innsýn í njósnaraveröld kalda stríðsins en mörgum lesendum hans hefur verið ljóst til þessa. Tvær bækur Guillou, Leiðin til Jerúsalem og Illskan, hafa komið út í íslenskum þýðingum. Kvikmyndir eftir bókum Guillou hafa einnig verið sýndar í íslensku sjónvarpi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert