Talið er að loftsteinn hafi fallið til jarðar í Lettlandi í gær. Glóandi hlutur sást falla til jarðar í útjaðri þorpsins Mazsalaca og þegar að var komið hafði myndast 15 metra breiður og fimm metra djúpur gígur og eldur logaði í miðjunni.
Þorpsbúar kölluðu slökkvilið til en sérfræðingar segja, að allt bendi til þess að um hafi verið að ræða loftstein. Engan sakaði þegar steinninn féll til jarðar og engin geislavirkni eða önnur mengun hefur mælst.
Lögregla hefur girt gíginn af til að koma í veg fyrir að fólk reyni að ná sér í brot úr steininum. Sérfræðingar eru nú að rannsaka staðinn og munu væntanlega taka sýni.
Sjaldgæft er að loftsteinar lendi á jörðinni en þeir brenna flestir upp í lofthjúpi jarðar. Stærsti steinninn, sem fundist hefur, vó 60 tonn og féll til jarðar nálægt bóndabæ í Namibíu.