Undrun vegna nýs ESB-fulltrúa Þýskalands

Günther Oettinger.
Günther Oettinger.

Það er óhætt að segja, að útnefning Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á nýjum fulltrúa Þjóðverja í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi vakið undrun.  „Hvað á þetta að þýða?" er  José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagður hafa spurt þýska kunningja sína.

Nýi fulltrúinn heitir Günther Oettinger og er lítt þekktur þýskur stjórnmálamaður. Oettinger, sem er 56 ára, hefur verið forsætisráðherra fylkisins Baden-Württemberg. Útnefningin virtist koma honum sjálfum jafn mikið á óvart og öðrum. „Það var ekki hægt að hafna slíku boði. ...Það var nú eða aldrei," sagði Oettinger í samtali við Hamburger Abendblatt. 

Merkel sagðist vera „afar, afar ánægð," með að Oettinger hafi ákveðið að þiggja embættið í Brussel og bætti við að hann myndi verða pólitískur þungavigtarmaður þegar hann leysir Günter Verheugen, núverandi fulltrúa Þjóðverja í framkvæmdastjórn ESB, af hólmi.   

Þýskir fréttaskýrendur segja ljóst, að með þessari tilnefningu sé Merkel að losa sig við óþægilegt pólitískt vandamál. Þau Merkel og Oettinger lentu nýlega í deilum þegar togast var á um framlög úr þýska ríkiskassanum. Þá lenti Oettinger á milli tanna á fólki árið 2007 þegar hann varði nasistafortíð fyrirrennara síns í embætti þingforseta  Baden-Württemberg, en sá var þá nýlega látinn.

Blaðið Süddeutsche Zeitung sagði einnig í dag, að útnefning Oettingers undirstrikaði að þýsk stjórnvöld teldu að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skipti æ minna máli.

Ónafngreindur stjórnmálamaður úr Jafnaðarmannaflokknum sagði við blaðið Tagesspiegel, að með útnefningunni væri Þýskaland að senda leikmann úr utandeildarliði til að spila með liði í meistaradeild Evrópu.   

Martin Schulz, þýskur Evrópuþingmaður, lýsti í dag efasemdum um, að Evrópuþingið muni fallast á tilnefningu Oettenbergs. 

Þá hefur verið bent á í dag, að Oettenberg gæti gert túlkum Evrópusambandsins lífið leitt en hann talar þýsku með afar sterkum  hreim sem samlandar hans eiga jafnvel erfitt með að skilja.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert