Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, segist í blaðaviðtali í dag munu sækjast eftir væntanlegu embætti forseta Evrópusambandsins en það embætti verður stofnað ef öll ríki Evrópusambandsins staðfesta svonefndan Lissabon-sáttmála.
„Ef leitað væri til mín hefði ég enga ástæðu til að neita að hlusta, svo framarlega sem hugmyndir um embættið séu metnaðarfullar," segir Juncker við franska blaðið Le Monde.
Bresk stjórnvöld hafa að undanförnu teflt Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, fram en skiptar skoðanir munu vera innan Evrópusambandsins um hvort hann sé heppilegur forseti þess.
Juncker segist ekkert hafa á móti Blair en telji þó, að fyrsti forseti Evrópusambandsins eigi að koma frá ríki, sem eigi djúpar rætur í Evrópusambandinu. Bretar eiga hvorki aðild að evrusvæðinu né Schengensvæðinu.
Öll aðildarríki ESB utan Tékkland, hafa staðfest Lissabon-sáttmálann.