Obama flýtir sér hægt

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að hann muni ekki taka ákvörðun um að fjölga hermönnum í Afganistan í flýti, en mjög er þrýst á forsetann að hann ákveði sig. Obama ávarpaði bandaríska hermenn í Flórída þar sem hann sagði að hann myndi ekki stofna lífi þeirra í hættu að óþörfu.

Áður en hann ávarpaði herinn átti forsetinn fund með þjóðaröryggisráðgjöfum sínum, þar sem rætt var um málefni Afganistans.

Fréttaskýrendur segja að ávarp forsetans sé mögulega viðbrögð við ummælum Dicks Cheneys, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, um að Obama væri tvístígandi í málinu.

Hvíta húsið segir að ákvörðun varðandi nýja hernaðaráætlun í Afganistan, og fjölgun hermanna þar, sé væntanleg á næstu vikum. Gagnrýnendur halda því hins vegar fram að Obama taki sér of langan tíma í að ákveða sig.

Hershöfðinginn Stanley McChrystal, sem er æðsti yfirmaður Bandaríkjahers í Afganistan, hefur óskað eftir því að 40.000 manna herlið verði sent til landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert