Vill stofna norrænt ríki

Verður Margrét Þórhildur þjóðhöfðingi Íslands?
Verður Margrét Þórhildur þjóðhöfðingi Íslands? Reuters

Sænskur sagnfræðingur leggur til að öll Norðurlöndin verði sameinuð í einu ríki, að Margrét Danadrottning verði þjóðhöfðingi nýja ríkisins og Kaupmannahöfn verði höfuðborg. Vísar sagnfræðingurinn til þess, að síðast hafi Norðurlöndin veri eitt ríki í Kalmarsambandinu í lok 14. aldar undir stjórn Margrétar 1.

Gunnar Wetterberg skrifar grein í sænska blaðið Dagens Nyheter í dag þar sem hann setur fram þessa tillögu. Segir hann að Norðurlöndin fimm, Ísland, Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð, yrðu stórveldi ef þau legðu saman krafta sína. Að auki myndi norræn ríkjasameining hafa góð áhrif á efnahag og menningu þjóðanna.  

„Staða norrænnar menningar yrði mun sterkari innan ríkis með 25 milljónir íbúa. Markaðurinn fyrir norrænar bókmenntir, leiklist og tónlist yrði mun stærri en hann er nú," segir Wetterberg.  

Hann segir að tungumálaerfiðleikar yrðu leystir með því að gera eitt norrænt tungumál, utan móðurmálsins, hluta af skyldunámi.

Wetterberg segir að þetta séu alls ekki óraunhæfar hugmyndir vegna þess að heldur hafi dregið úr sænska hrokanum á síðustu áratugum.

Grein Gunnars Wetterbergs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert