John Bruton, fyrrverandi forsætisráðherra Írlands, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti forseta ráðherraráðs Evrópusambandsins, að sögn flokks hans, Fine Gail. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er einnig talinn líklegur til að sækjast eftir embættinu.
Bruton er 62 ára og hefur verið sendiherra Evrópusambandsins í Washington síðustu fimm ár. Hann fór fyrir þriggja flokka samsteypustjórn á Írlandi á árunum 1994-97.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, lýsti í dag yfir stuðningi við Blair í embætti ráðherraráðs ESB. Blair er þekktasti maðurinn sem nefndur hefur verið sem forsetaefni en forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker, nýtur nú vaxandi stuðnings í embættið.
Nokkur ESB-ríki hafa lýst yfir stuðningi við Blair, en önnur eru treg til að fallast á hann. Stjórn Þýskalands hefur ekki enn tekið afstöðu í málinu.
Formaður þingflokks Frjálsra demókrata segir að þingmenn flokksins vilji frekar að stjórnmálamaður frá litlu landi verði fyrir valinu þar sem stóru ríkin séu of valdamikil innan Evrópusambandsins.
Leiðtogi Frjálsra demókrata, Guido Westerwelle, er utanríkisráðherra Þýskalands og getur því haft mikil áhrif á ákvörðun þýsku stjórnarinnar í málinu. Búist er þó við að Angela Merkel kanslari eigi lokaorðið í málinu.