Ísland studdi tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær um að skora á Bandaríkin að aflétta viðskiptabanni á Kúbu. 187 þjóðir studdu tillöguna og var þetta 18. árið í röð sem allsherjarþing SÞ fordæmdi viðskiptabann Bandaríkjanna á kommúníska eyríkið Kúbu.
Atkvæðagreiðslan var ekki bindandi. Stuðningur við tillöguna var yfirgnæfandi og meðal þeirra sem studdu hana voru lönd Mið- og Suður-Ameríku, ríki Evrópusambandsins og fleiri nánir bandamenn Bandaríkjanna.
Einungis Ísrael og smáríkið Palau greiddu atkvæði með Bandaríkjunum gegn tillögunni. Míkrónesía og Marshall eyjar sátu hjá.
Stuðningur við tillöguna um að Bandaríkin afnemi viðskiptabannið hefur vaxið ár frá ári frá 1992, en þá greiddu 59 ríki atkvæði með tillögunni. Árið 2004 studdu 179 ríki tillöguna, 182 ríki árið 2005, 184 ríki árið 2007 og 185 ríki studdu hana í fyrra.
Bandaríkin komu viðskiptabanninu á fyrir nærri hálfri öld, þegar kalda stríðið stóð sem hæst og Kúba naut stuðnings Sovétríkjanna.