Hneykslismál í færeyskum fótbolta

Þórshöfn í Færeyjum.
Þórshöfn í Færeyjum. Ómar Óskarsson.

Knattspyrnusamband Færeyja, FSF, nötrar nú vegna hneykslismáls sem tengist aðgöngumiðum á úrslitaleik EM 2008. Aðalritari FSF seldi úkraínskri ferðaskrifstofu aðgöngumiðana og lét leggja fyrirframgreiðslu upp á 15 þúsund evrur inn á einkareikning sinn. Málið upplýstist nýlega.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, úthlutaði FSF 130 aðgöngumiðum að úrslitaleik EM árið 2008 og var andvirði miðanna 29.120 evrur (tæplega 5,4 milljónir ÍKR), samkvæmt gögnum sem Færeyska útvarpið hefur fengið frá UEFA.

Skjölin sýna að Ísak Mikladal, aðalritari FSF, samdi við úkraínsku ferðaskrifstofuna Sport Line Travel um að selja þeim aðgöngumiðana sem Færeyingar fengu úthlutað frá UEFA. Samið var um að ferðaskrifstofan myndi leggja fyrirfram 15 þúsund evrur (2.750.000 ÍKR) inn á einkareikning Mikladals og afganginn eftir afhendingu miðanna.

Mikladal tók við peningunum sem fóru á hans bankareikning.  UEFA frétti af tiltækinu og lét ógilda aðgöngumiðana. Evrópska knattspyrnusambandið krafði síðan Mikladal skýringa.

Mikladal sagði m.a. í svari sínu til UEFA að úkraínska ferðaskrifstofan hafi sent honum tölvupóst í september 2007 og falast eftir aðgöngumiðunum.

Mikladal kvaðst hafa áttað sig á því að ekki var allt með felldu. Því hafi hann ákveðið að taka þátt í þessu til að fletta ofan af spillingu í úkraínska knattspyrnusambandinu, því það ætti umrædda ferðaskrifstofu.

UEFA taldi þessa skýringu ekki trúverðuga. Það sagði ljóst að fulltrúi Færeyska knattspyrnusambandsins hafi selt aðgöngumiða sem sambandinu var úthlutað til ferðaskrifstofu, en það sé stranglega bannað. Einnig benti UEFA á að langur tími hafi liðið frá því Mikladal tók við greiðslunni þar til hann sagði frá málinu.

UEFA sektaði Mikladal um 5.000 evrur auk þess sem honum var vikið úr starfi aðalritara í þrjá mánuði.  Hann skilaði fyrirframgreiðslunni upp á 15 þúsund evrur til UEFA.

Mikladal áfrýjaði málinu til kærunefndar UEFA. Hún leysti hann undan sektinni og því að vera vikið úr starfi aðalritara. Þess í stað  fékk hann áminningu fyrir að hafa selt ferðaskrifstofunni aðgöngumiðana. Kærunefndin sagði það koma Mikladal til góða að hann greindi UEFA frá málinu að fyrra bragði.

Høgni í Stórustovu forseti Færeyska knattspyrnusambandsins FSF skrifaði formönnum aðildarfélaga sambandsins í gær og lýsti því yfir að hann treysti ekki Ísak Mikladal aðalritara. Hann óskaði eftir áliti formannanna á málinu. 

Høgni í Stórustovu  sagði m.a. í bréfi sínu að framkvæmdastjórn FSF hafi rætt málið og verið tvískipt í afstöðu sinni. Mikill meirihluti gekk af fundinum en minnihlutinn, sem formaðurinn studdi, sat eftir, að því er færeyska útvarpið greinir frá.

Høgni kvaðst hafa fyrst komist á snoðir um málið 21. október síðastliðinn. Hann segir að enginn í framkvæmdastjórninni hafi vitað um málið. Stjórnin hefur rætt málið á þremur fundum nú í vikunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert