Dómstóll í Kaliforníu í Bandaríkjunum komst í dag að þeirri niðurstöðu að fjölskylda konu sem lét lífið í vatnsdrykkjukeppni ætti rétt á 16,5 milljón dollurum í bætur, eða jafnvirði tveggja milljarða króna. Niðurstaðan var ljós eftir tveggja vikna íhugun tólf manna kviðdóms.
Konan sem var 28 ára þriggja barna móðir tók þátt í keppni á vegum útvarpsstöðvar í Sacramento. Verðlaunin voru Nintendo Wii leikjatölva. Reglurnar voru þannig, að þátttakendum voru látnar í té 225 ml vatnsflöskur á fimmtán mínútna fresti. Sá þátttakandi sem mest vatn drakk án þess að skila af sér vatni stóð uppi sem sigurvegari.
Konan fór aftur til vinnu eftir keppnina en kvartaði fljótlega yfir hausverk og fór því fyrr heim. Hún fannst síðar látin á heimili sínu.
Krufning leiddi í ljós að konan dó úr vatnseitrun. Hún getur orðið þegar of mikið vatn er drukkið á of stuttum tíma.
Fjölskylda konunnar fór í mál við útvarpsstöðina og kröfðu eigendur hennar um 34 milljónir dollara. Dómurinn lækkaði upphæðina töluvert og féllst á að réttmætar bætur væru 16,57 milljónir dollara.