Vilja frekar leiðtoga frá litlu landi

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Frjálsir demókratar, annar stjórnarflokkanna í Þýskalandi, eru lítt hrifnir af því Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, verði kjörinn forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Blair er þekktasti maðurinn sem nefndur hefur verið sem forsetaefni en forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker, nýtur nú vaxandi stuðnings í embættið.

Nokkur ESB-ríki hafa lýst yfir stuðningi við Blair, en önnur eru treg til að fallast á hann. Stjórn Þýskalands hefur ekki enn tekið afstöðu í málinu.

Formaður þingflokks Frjálsra demókrata, segir að þingmenn flokksins vilji frekar að stjórnmálamaður frá litlu landi verði fyrir valinu þar sem stóru ríkin séu of valdamikil innan Evrópusambandsins.

Leiðtogi Frjálsra demókrata, Guido Westerwelle, er utanríkisráðherra Þýskalands og getur því haft mikil áhrif á ákvörðun þýsku stjórnarinnar í málinu. Búist er þó við að Angela Merkel kanslari eigi lokaorðið í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka