Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að fatahönnunarfyrirtæki skuli greiða járnsmiðju reikning fyrir grind utan um fiskabúr, sem átti að nota á tískusýningu á skemmtistaðnum Nasa í ágúst á síðasta ári. Þegar til átti að taka lak fiskabúrið og kalla þurfti á slökkvilið til að hreinsa til.
Fyrirtækið Mundi Design hafði samband við Járnsmiðju Óðins á síðasta ári og bað um að smíðað yrði stálgrindabúr sem átti að halda utan um fiskabúr. Búrið átti að vera 2,50 metrar á hæð og 1,50 metrar á breidd og dýpt. Glerið í búrið var pantað annarstaðar og kostaði það um 516 þúsund krónur.
Í greinargerð kemur fram, að þegar búrið var tilbúið og búið að líma glerið saman var stutt í að tískusýningin hæfist. Starfsmenn Munda Design og fiskabúrasmiðurinn hafi reynt að koma glerinu fyrir í stálgrindarbúrinu en þá kom í ljós að stálgrindin passaði ekki utan um glerið. Var þá haft samband við glerskurðarmanninn og þurfti að saga toppinn ofan af glerbúrinu með miklum erfiðismunum. Að endingu tókst að spenna stálgrindarbúrið í sundur og bókstaflega troða glerinu í það. Síðan voru fengnir starfsmenn frá járnsmiðjunni til að setja toppinn af glerinu aftur á búrið eftir að glerið var komið inn í stálgrindarbúrið.
Um það bil 5 tímum fyrir tískusýninguna var byrjað á því að láta vatn renna í fiskabúrið. Þegar fiskabúrið var orðið u.þ.b. hálft af vatni fór það að leka og vatn streymdi út á gólfið. Þurfti marga menn til að kljást við lekann og var slökkviliðið kallað til með dælubíl til að dæla upp úr fiskabúrinu. Reikningurinn fyrir dælubílinn nam 65.200 krónum.
Daginn eftir þurfti að brjóta tvær glerplötur til þess að koma þeim út úr stálgrindarbúrinu og mat Mundi Design það tjón upp á 265 þúsund krónur auk kostnaðar við dælubílinn og þeirrar ómældu vinnu sem fólst í því að bregðast við lekanum og koma hlutunum í rétt horf fyrir sýninguna. Því hafi tjónið numið hærri fjárhæð en sú upphæð, sem járnsmiðjan krafðist fyrir búrið, 301 þúsund króna; Mundi Design fullyrti raunar að upphaflegt tilboð smiðjunnar í búrið hafi verið 60 þúsund krónur.
Þegar fatahönnunarfyrirtækið neitaði að greiða fyrir búrið fór Járnsmiðja Óðins í innheimtumál. Niðurstaða dómsins er sú, að engin skrifleg gögn liggi fyrir um að járnsmiðjan hafi gert verðtilboð og ekki hefði heldur verið sýnt fram á að járnsmiðjan hefði tekið að sér að hafa umsjón með öllu verkinu og setja búrið saman.
Þá taldi dómurinn að ekki hefði verið sýnt fram á að smíði stálgrindarbúrsins hafi verið áfátt að einhverju leyti eða að stálgrindin hafi ekki verið í samræmi við beiðni um stærð og gerð. Þá hafi Munda Design heldur ekki tekist að sýna fram á að reikningur járnsmiðjunnar væri ósanngjarn miðað við efni og vinnu sem lögð var að mörkum.