Réttað verður yfir eiganda stærsta kannabis-kaffihúss í Hollandi á þriðjudag. Hann er grunaður um innflutning fíkniefna, en á kaffihúsinu fannst meira af fíkniefnum en leyfilegt er með lögum. Á lager kaffihússins fundust 110 kíló af kannabis á síðasta ári, en aðeins má vera með 500 grömm.
Kaffihúsinu var lokað í maí á síðasta ári eftir að tvívegis hafði fundist meira magn kannabiss en leyfilegt er. Á starfstíma kaffihússins sóttu þangað á milli tvö og þrjú þúsund viðskiptavinir á degi hverjum. Flestir þeirra komu frá Belgíu og Frakklandi en staðurinn var staðsettur í bænum Terneuzen, skammt frá belgísku landamærunum. Í bænum búa um 25 þúsund manns.
Á meðan kaffihúsin mega geyma hálft kíló af kannabisefnum má hver einstakur viðskiptavinur ekki eiga meira en fimm grömm. Þau lög eru hins vegar oft brotin og viðskiptavinir kaupa oftar en ekki meira.
Hollensk stjórnvöld hafa verið að herða reglur um fíkniefnanotkun að undanförnu, sérstaklega til að hindra fíkniefnaferðalanga. Meðal annars hefur verið gefið út að kaffihússin fái hugsanlega aðeins að afgreiða hollenska ríkisborgara.