Mótmæla brottrekstri Nutt

AP

Tveir meðlimir ráðgjafanefndar bresku stjórnarinnar um misnotkun fíkniefna hafa sagt af sér í mótmælaskyni við þá ákvörðun Alan Johnson innanríkisráðherra að reka formann nefndarinnar David Nutt fyrir að hafa lýst því opinberlega að fíkniefnið kannabis sé hættuminna en áfengi og sígarettur og hafi verið sett í áhættumeiri flokk af pólítískum ástæðum.

Efnafræðingurinn Les King var áður yfirmaður leyniþjónustudeildar fíkniefna innan tæknideildar lögreglunnar, sagði sig úr nefndinni og segir Johnson hafa brotið á tjáningarfrelsi Nutt þegar hann rak hann. King segir að viðhorf ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar hafi verið að breytast síðustu ár og innanríkisráðuneytið hefði ákveðin pólitísk markmið í huga þegar það óskaði eftir sérfræðiáliti hennar. Því telur hann nefndina eiga að starfa án afskipta yfirvalda enda ættu vísindi að vera óháð pólitík.

Alan Johnson varði ákvörðun sína í samtali við BBC og segir Nutt hafi farið yfir línuna milli ráðgjafar og pólitískra afskipta af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Samflokksmaður hans Lord Robert Winston lýsti í vikunni furðu og vonbrigðum með ákvörðun Johnson.

Málsmetandi vísindamenn í Bretlandi hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir lítinn skilning gagnvart vísindum og telja líklegt að fleiri vísindamenn innan nefndarinnar segir af sér.

Marion Walker, lyfjafræðingur og framkvæmdastjóri við fíkniefnameðferðarstöð Berkshire He Healthcare NHS Foundation Trust, sagði sig einnig úr ráðinu í mótmælaskyni.

Í nefndinni situr 31 maður og segir King að nefndarmenn taki brottrekstur Nutt mjög alvarlega þó hann geti ekki staðfest hve margir íhugi að hætta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka