Sigldi undir Stórabeltisbrúna

Oasis of the Seas var smíðað í Finnlandi.
Oasis of the Seas var smíðað í Finnlandi. Reuters

Stærsta farþegaskip heims,  Oasis of the Seas, sigldi undir Stórabeltisbrú laust eftir miðnætti í nótt að dönskum tíma. Fjöldi fólks fylgdist með siglingunni en ljóst var að skipið myndi með naumindum komast undir brúna.

Skipið er 360 metra langt og 72 metra hátt en Stórabeltisbrúin er 65 metrar þar sem hún er hæst. Hins vegar er hægt að draga reykháfa skipsins niður líkt og sjónpípur á kafbáti. Þá var skipinu siglt undir brúna á fjöru og á mikilli ferð þannig að það lægi sem dýpst í sjónum.

Verið er að sigla skipinu frá Turku í Finnlandi, þar sem það var smíðað, í heimahöfn í Fort Lauderdale á Flórída.  

Skipið kostaði jafnvirði nærri 200 milljarða króna og eru niðurdraganlegu reykháfarnir einir sagðir hafa kostað 300 milljónir. Skipið er 16 hæðir og tekur um 6000 farþega. Áhöfnin telur 2200 manns. Jómfrúrferð skipsins verður í desember.

 Myndskeið af siglingu skipsins undir Stórabeltisbrú 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert