Mega glápa á sjónvarp undir stýri

DARIO PIGNATELLI

Dómstóll í Seoul í Suður-Kóreu hefur hafnað málsókn gegn leigubílstjórum í borginni. Höfða átti mál til þess að skylda bílstjórana til að láta af mjög ógnvænlegum ávana, það er að segja að glápa á sjónvarpið á meðan þeir aka fólki um borgina.

Dómstóllinn fyrirskipaði borgaryfirvöldum í Seoul í gær að fella niður sekt upp á 600.000 won, jafnvirði um 60.000 króna, sem lögð hafði verið á leigubílstjóra. Borgin setti í fyrra reglugerð sem bannar notkun margmiðlunar á meðan á akstri stendur.

Dómstóllinn dæmdi hins vegar að reglugerðin sé ólögleg þar sem hún byggist á lagaheimild frá 1961, sem síðar hefur verið vikið frá af nýrri lögum. Minnihluti leigubílstjóra í borginni lætur breyta skjám í mælaborði bíla sinna, sem almennt er ætlað fyrir landakort og GPS leiðsögukerfi, þannig að þeir geti horft á sjónvarp á þeim.

Tölfræði frá lögreglu sýnir fram á að sjónvarpsglápið veldur 200 umferðaróhöppum á ári, tveimur banaslysum og 351 slysi þar sem fólk meiðist. Nú á að leggja fram frumvarp á þingi Suður-Kóreu til að banna glápið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert