Franska stjórnin hefur hrundið úr vör verkefni sem miðar að því að efla blaðalestur ungs fólks, á aldrinum 18 til 24 ára.Fá fyrstu 200.000 sem skrá sig á sérstakri heimasíðu verkefnisins dagblað sent heim til sín í eitt ár sér að kostnaðarlausu.
Viðkomandi geta hvort sem er valið sér landsmálablað eða héraðsblað samkvæmt tilboðinu. Nicolas Sarkozy forseti tilkynnti um verkefnið í janúar sl., en menningarmálaráðherrann Frédéric Mitterrand hleypti því af stokkum fyrir helgi.
Mitterrand sagði, að innan við 10% fólks á aldrinum 18-24 ára lesi dagblöð að staðaldri, samkvæmt könnun frá árinu 2007.
Um 60 frönsk dagblöð hafa gengið til samstarfs við ríkisstjórn Sarkozy um þetta verkefni. Til þess ver stjórnin 15 milljónum evra á næstu þremur árum.