Hópur fólks sem kannaði afstöðu Bandaríkjamanna til framlags yfirvalda til heilbrigðismála og fjölgunar starfa, komst að því að fólk var frekar til í að eyða meiru í heilbrigðismál ef spyrillinn hnerraði í olnbogabótina á meðan að viðtalið var tekið.
Svínaflensan nýlega komin til Bandaríkjanna þegar könnunin var gerð en atvinnuleysi hefur einnig aukist verulega. Var fólk á förnum vegi í Michigan spurt hvort það vildi frekar að yfirvöld legðu 1,3 milljarða dala, ríflega 163 milljarða króna, í heilbrigðismál eða fjölgun nýrra starfa. Ef spyrillinn hnerraði í olnbogabótina þegar viðtalið var tekið, líkt og sóttvarnalæknar þar hafa mælt með, vildu 48% viðmælenda styðja heilbrigðismálin á móti 17% þeirra sem ekki fengu hnerrandi spyril.
Norbert Schwartz prófessor í sálfræði við háskólann í Michigan og einn af forsvarsmönnum rannsóknarinnar, segir þetta eðlilegt þar sem hnerri valdi fólki áhyggjum, ekki síst á meðan að flensufaraldur geisar. Í slíkum tilfellum breytist forgangsröðunin óhjákvæmilega, jafnvel í ríki eins og Michigan, þar sem atvinnuleysi mælist það hæsta í 50 fylkjum Bandaríkjanna eða um 15,3% í september. Schwartz segir ólíklegt að nokkur hefði kippt sér upp við hnerrann eða tengt hann við heilbrigðismál ef svínaflensan hefði ekki verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.
Um hundrað manns tóku þátt í könnuninni sem fór fram í Michigan fylki í maí, á svipuðum tíma og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin tilkynnti um dauðsföll af völdum svínaflensuveirunnar A(H1N1) í Mexíkó og heimsfaraldurinn byrjaði.