Kínverskur dómstóll hefur dæmt „guðmóður" skipulagðra glæpasamtaka í átján ára fangelsi, eftir umfangsmikil réttarhöld sem hafa vakið mikla athygli í Kína. Ekki síst hafa vakið athygli sögur af kynlífi og spillingu guðmóðurinnar.
Dómurinn, sem héraðsdómur í Chongqing-borg kvað upp er sá nýjasti í röð dóma eftir að mikið átak var gert gegn undirheimastarfsemi í borginni, sem er í suðvesturhluta Kína.
„Guðmóðirin" Xie Caiping, sem er 46 ára gömul, er sögð hafa rekið tuttugu ólögleg spilavíti á hótelum, næturklúbbum og tehúsum. Hún mun einnig hafa tekið þátt í fíkniefnaviðskiptum og mútað lögreglumönnum til þess að sjá í gegnum fingur sér með afbrot hennar.
Xie, sem keyrði um á Mercedes Benz bifreið, var eigandi margra glæsihúsa og var með ,,karlabúr" með sextán ungum mönnum sem áttu að veita henni kynferðislega greiða.
Xie er mágkona fyrrverandi dómstjóra í Chongqing, Wen Qiang, sem einnig er flæktur í spillinguna. Hann var lögregluforingi í sextán ár áður en hann varð yfirmaður dómsvaldsins í borginni. Hann er hæst setti embættismaðurinn sem er flæktur í málið, en í málinu öllu er búið að handtaka 1.500 manns. Wen er ásakaður um að hafa verndað mikinn spillingarvef sem inniheldur kaupsýslumenn, embættismenn og mafíósa.
Auk þess að fá fangelsisdóminn var guðmóðirin sektuð um 1,02 milljónir júana (tæpar 19 milljónir króna). Tuttugu og einn annar sakborningur voru dæmdir ásamt Xie, í eins til þrettán ára fangelsi, þar á meðal ástmaður hennar. Þá voru tveir lögreglumenn dæmdir í 12 og 13 ára fangelsi fyrir mútuþægni.