Fréttaskýring:Þverrandi vinsældir Bandaríkjaforseta

Vinsældir Baracks Obamas Bandaríkjaforseta fara þverrandi heima fyrir. Andstæðingar hans gagnrýna hann af mikilli heift og stuðningsmönnum hans finnst hann skorta ákveðni. Í þessari viku er ár liðið frá því að Obama var kosinn forseti. Í kosningabaráttunni boðaði hann breytingar, en þær hafa látið á sér standa. Í úttekt í tímaritinu Newsweek var af þessu tilefni farið ofan í 15 kosningaloforð forsetans og var niðurstaðan sú að tvö hefðu verið uppfyllt, eitt brotið og restin hefði mætt hindrunum eða væri í vinnslu.

Fyrstu vikurnar eftir að Obama tók við embætti naut hann velþóknunar um 70% kjósenda fyrir störf sín. Í lok apríl þegar hann hafði verið 100 daga í embætti naut hann meiri stuðnings en forverar hans undanfarin 20 ár höfðu gert eftir jafn langan tíma við völd.

Í júlí voru vinsældir Obamas orðnar minni en vinsældir Bush voru hálfu ári eftir að hann varð forseti.

Á sunnudag birtist mánaðarleg könnun Rasmussen Reports sem sýndi að 29% kjósenda líta störf Obamas með mikilli velþóknun, en 39% með mikilli vanþóknun. Út frá þessum tölum er reiknaður svokallaður velþóknunarstuðull, sem nú stendur í -10 hjá forsetanum, en var -8 í október.

Í mars höfðu demókratar tuttugu prósentustiga forskot á repúblikana, nú er forskotið komið niður í sex prósentustig. Þá töldu 56% Bandaríkjamanna að Bandaríkin væru á réttri leið, en nú er sama hlutfall þeirra hyggju að Bandaríkin séu á rangri leið.

Obama tók við embætti í miðju efnahagsfári. Hann hefur þurft að standa fyrir gríðarlegum fjárútlátum úr vösum skattborgara í björgunaraðgerðir, sem eru lítt fallnar til vinsælda.

Bandarískt stjórnkerfi er vísvitandi hannað þannig að allar breytingar gerast hægt. Obama er ekki fyrsti forsetinn, sem finnur fyrir því. Honum er hins vegar legið á hálsi fyrir að vera maður fagurra orða og fyrirheita, en áhrifalaus. Til marks um þetta er bent á að hvort sem um er að ræða heilbrigðismál heima fyrir, landtökubyggðir Ísraela, kjarnorkuklerka í Íran eða alþjóðlegu ólympíunefndina, valdamesti maður heims fái engu framgengt.

Dálkahöfundurinn Charles Krauthammer, sem kenndur er við nýíhaldssemi, telur að stefna Obamas leiði til falls Bandaríkjanna. Stöðug sjálfsgagnrýni forsetans og afsökunarbeiðnir vegna hroka, pyntinga, Hiroshima, Guantanamo, einhliða utanríkisstefnu og skorts á virðingu fyrir veröld múslíma grafi undan landinu. Fjölmiðlamaðurinn áhrifaríki Rush Limbaugh sakar Obama um að gelda Bandaríkin. Það kunni Evrópuaðallinn að meta og þess vegna hafi hann fengið Nóbelsverðlaunin: „Þeir vilja veikja, gelda Ameríku og þetta er leið þeirra til að koma hugmyndinni í umferð,“ sagði hann.

En hefði heimurinn frekar látið að stjórn hefðu John McCain eða Hillary Clinton verið forsetar? Eða hafa væntingarnar enn einu sinni strandað á veruleikanum?

Barack Obama forseti Bandaríkjanna
Barack Obama forseti Bandaríkjanna Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka