Bloomberg marði sigur

Michael Bloomberg borgarstjóri í New York þegar úrslitin lágu fyrir
Michael Bloomberg borgarstjóri í New York þegar úrslitin lágu fyrir Reuters

Borgarstjórinn í New York, Michael Bloomberg, fór með sigur af hólmi í kosningunum þar í gær. Kom það fréttaskýrendum á óvart hve mjótt var á munum en Bloomberg fékk 51% atkvæða á meðan keppinauturinn, demókratinn William Thompson fékk 46% atkvæða.

Það er því ljóst að Bloomberg mun stýra borginni þriðja kjörtímabilið í röð en hann lét breyta lögum  borgarinnar á þann veg að borgarstjóra væri heimilt að sitja fleiri en tvö kjörtímabil. Er talið að kosningabaráttan hafi kostnað Bloomberg gríðarlegar fjárhæðir og áttu flestir von á stórsigri borgarstjórans.

Er haft eftir aðstoðarmanni hans í The New York Times í dag að öllum hafi brugðið við hve lítill munurinn var. Í sigurræðu sinni dró Bloomberg hins vegar úr því hversu lítill munurinn væri og sagði baráttuna hafa verið harða í erfiðu árferði.

Bloomberg er ekki flokksbundinn en bauð fram undir hatti Repúblikanaflokksins. Vakti athygli að keppinautur hans, Thomson fékk nánast engan stuðning úr herbúðum forseta Bandaríkjanna, Baracks Obama.

Bloomberg, sem er 67 ára að aldri, tók við embætti borgarstjóra New York árið 2001 er Rudolph Giuliani lét af embætti. Bloomberg hefur verið hælt óspart fyrir að hafa breytt New York borg úr því að vera eina hættulegustu og skítugustu borg Bandaríkjanna í eina af hreinustu og öruggustu borgum landsins.

Meðal afreka hans á því sviði eru nefnd atriði eins og bygging lúxusbygginga, að hafa ákveðið að breyta Times Square í göngugötu, gert veitingahúsum að sýna á matseðlum hversu margar kaloríur eru í réttum. Að hafa bannað reykingar á börum og að íhuga að banna reykingar í almenningsgörðum í borginni.

Á sama tíma hafa gagnrýnendur hans haldið því fram að hann hafi einungis flutt ýmis vandamál út úr borginni og að margir íbúar borgarinnar sakni fyrri tíma og þeirrar óreiðu sem einkenndi borgina.

Bloomberg er afar auðugur maður en eignir hans eru metnar á 17,5 milljarða Bandaríkjadala, 2.186 milljarða króna, af Forbes tímaritinu. En hann stofnaði meðal annars Bloomberg fréttaveituna á sínum tíma. Talið er að hann hafi dælt um einni milljón dala, 125 milljónum króna, í kosningabaráttuna á dag, síðustu vikurnar og er talið að kosningabaráttan hafi kostað hann um 100 milljónir dala, 12,5 milljarða króna.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert