Bretar ósáttir með „endalok Bretlands“

David Cameron og eiginkona hans, Samantha.
David Cameron og eiginkona hans, Samantha. Stephen Hird

David Cameron, formaður breska íhaldsflokksins, mun útlista endurbætta stefnu flokks síns í Evrópumálum í dag. Hann er nú hættur við loforð sitt um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um Lissabon-sáttmálann, ef hann kemst til valda, eftir að Tékkland gaf græna ljósið á hann í gær. Lissabon-sáttmálinn mun taka gildi 1. desember.

Cameron stendur frammi fyrir því erfiða verkefni að móta stefnu sem heldur hörðum ESB-andstæðingum í flokknum ánægðum, fram að kosningunum í júní næskomandi. Evrópumálin hafa oft valdið titringi í flokknum.

„Nú þegar sáttmálinn verður að lögum og tekur gildi, þýðir það að þjóðaratkvæði geti ekki lengur komið í veg fyrir að búið verði til forsetaembætti, og þjóðlegt neitunarvald Bretlands er tapað," sagði William Hague, talsmaður íhaldsflokksins í utanríkismálum, í gær. Hann hefur varað Cameron við því að Evrópumálin séu tifandi tímasprengja fyrir flokkinn. Margir Bretar eru reiðir við Gordon Brown forsætisráðherra, fyrir að hafa ekki sjálfur komið á þjóðaratkvæði um sáttmálann.

Búist er við því að Cameron flytji í dag ræðu þar sem hann ítreki að hann sé tilbúinn til að takast á við Evrópusambandið og láta kjósa um alla samninga í framtíðinni, sem flytji vald frá ríkjum til Brussel. Einnig er búist við því að hann ítreki að hann vilji að Bretar taki aldrei upp evruna.

Mörg bresk dagblöð hafa tekið fullgildinu Tékka á Lissabon-sáttmálanum mjög illa og endurspeglaðist það í fyrirsögnum dagsins. ,,Bretland: Endalokin." var fyrirsögnin á The Daily Express og á forsíðu mest lesna blaðsins, The Sun, stendur ,,Undirritað, innsiglað, afhent. Hoppið upp í #%& á ykkur!" í lauslegri þýðingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert