Sigur repúblikana í ríkisstjórakosningum í New Jersey og Virginíu í fyrradag er álitinn áfall fyrir Barack Obama og demókrata nú þegar ár er liðið frá því að hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Repúblikaninn Bob McDonnell var kjörinn ríkisstjóri Virginíu, ríkis þar sem Obama sigraði í forsetakosningunum fyrir ári, fyrstur forsetaefna demókrata í fjóra áratugi.
Sigur repúblikanans Chris Christies í New Jersey er álitinn meira áfall fyrir Obama sem hafði tekið þátt í kosningabaráttu ríkisstjóraefnis demókrata í ríkinu. Demókratar hafa verið öflugir í New Jersey.
Skoðanakannanir fyrir utan kjörstaði benda til þess að deilur um stefnu Obama hafi ekki haft mikil áhrif á ríkisstjórakosningarnar. Um 55% aðspurðra í Virginíu og 60% í New Jersey sögðu að stefna Obama hefði ekki haft áhrif á ákvörðun þeirra í kjörklefanum.
Kannanirnar leiddu í ljós að lítil kjörsókn var meðal kjósendahópa, svo sem ungra kjósenda og blökkumanna, sem áttu stóran þátt í sigri Obama fyrir ári. Þetta bendir til þess að erfitt verði fyrir demókrata að fá stuðning þessara hópa í næstu þingkosningum sem fram fara á miðju kjörtímabili forsetans.
Obama naut mikils stuðnings meðal óháðra kjósenda í Virginíu og New Jersey fyrir ári en margir þeirra kusu repúblikana í ríkisstjórakosningunum. Þetta kann að hafa áhrif á miðjumenn úr röðum þingmanna demókrata sem sækjast eftir endurkjöri á næsta ári. Líklegt er að þeir verði tregir til að styðja Obama í erfiðum málum á þinginu af ótta við að styggja þennan kjósendahóp.
Kosningaúrslitin benda til þess að repúblikanar eigi góða möguleika á sigri í þingkosningunum á næsta ári ef þeir leggja áherslu á efnahagsmálin og forðast að bjóða fram menn sem eru of íhaldssamir til að fá atkvæði kjósenda á miðjunni.