Þyrmt fram yfir barnsburð

Íslamsistar í suðurhluta Sómalíu grýttu mann til bana fyrir að hafa stundað kynlíf fyrir utan hjónaband í dag. Þeir ætla hins vegar að þyrma lífi unnustu hans, sem er þunguð, þar til hún hefur alið barnið. Eftir það verður hún einnig grýtt til bana.

Abas Hussein Abdirahman, 33 ára, var myrtur að viðstöddum þrjú hundruð manns í hafnarbænum Merka, að því er fram kemur á vef BBC.

Einn úr al-Shabab hópnum sem stóð fyrir drápi á manninum sagði við fréttamann BBC að konan yrði myrt eftir fæðingu barnsins.

Er þetta í þriðja skiptið á árinu sem íslamsistar grýta manneskju til bana í Sómalíu fyrir að stunda kynlíf fyrir utan hjónaband.

Sjeik Suldan Aala Mohamed, einn yfirmanna al-Shabab segir að Abdirahman hafi játað glæp sinn fyrir íslömskum dómstól.

Í síðasta mánuði voru tveir karlmenn á þessu svæði grýttir til bana en þeir voru grunaðir um njósnir. Eins var þrettán ára gömul stúlka grýtt til bana í bænum Kismayo í fyrra fyrir að hafa stundað kynlíf. Mannúðarsamtök segja hins vegar að henni hafi verið nauðgað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert