Austurríkismenn hafa nú áhyggjur af því fyrrum heimili fjölskyldu Adolfs Hitlers í austurríska bænum Braunau am Inn verði hugsanlega gert að helgistað nýnasista, en húsið er nú til sölu.
Hitler fæddist í húsinu árið 1889 og er það auglýst til sölu fyrir 2.2 milljónir evra, eða um 410 milljónir króna. Bæjarbúar óttast að húsið kunni að falla í hendur öfgamanna sem haldi málstað Hitlers á lofti. Bæjarstjóri Braunau, Gerhard Skiba, vill gera allt til að koma í veg fyrir að af því verði en bæjarráð hefur ekki efni á því að festa kaup á húsinu.
Húsið hefur síðustu ár verið notað af sjálfboðaliðasamtökum sem aðstoða fatlaða en það hefur einnig í gegnum tíðina gegnt hlutverki bókasafns, banka og rannsóknarstofu. Nokkrir sagnfræðingar hafa lagt til að breyta ætti húsinu í safn.
Bæjarstjórinn Skiba er hinsvegar mótfallinn þeirri hugmynd og segir það munu virka sem hvatning á fólk alls staðar að til að heimsækja húsið og líta á það sem merkan stað. Sem stendur er eina tengingin við vafasama fortíð hússins áletraður steinn sem tileinkaður er fórnarlömbum Nasista.