Kína mum veita löndum Afríku 10 milljarða dollara lán ef marka má orð kínverska forsætisráðherrans, Wen Jiabao, við setningu sameiginlegs fundar ríkanna, FOCAC (Forum on China-Africa Cooperation) í dag.
„Við munum aðstoða Afríku við að byggja upp efnahagslega möguleika sín...við munum veita 10 milljörðum bandaríkjadollara til Afríku í lán til þróunarhjálpar,“ hefur AFP eftir Wen við setningu fundarins, sem haldinn er í Egyptalandi við Rauða hafið. Wen hét þess einnig að fella niðurskuldir Afríkuríkja gagnvart Kína.
Á síðasta FOCAC fundi sem haldinn var í Peking 2006 helgaði Kína 5 milljörðum dollara til aðstoðar Afríku. Kínverjar hafa auk þess skrifað undir samkomulag þess efnis að létta á að fella alfarið niður skuldir 31 Afríkuríkis. „Kína er reiðubúið að dýpka enn frekar samstarf sitt við Afríku,“ sagði Wen og bætti því við að Kínverjar væru einnig reiðubúnir að aðstoða við að tryggja „frið og öryggi“ í álfunni.
Kínversk fyrirtæki hafa fjárfest gríðarlega í olíu og hráefnum í Afríku til að keyra áfram efnahag Kína. Á síðustu 5 árum hafa fjárfestingar Kínverja í Afríku rokið upp úr 491 milljónum dollara 2003 í 7,8 milljarða dollara 2008 skv. opinberum tölum í Kína.
Í Egyptalandi, þar sem FOCAC fundurinn fer fram, starfrækja 950 kínversk fyrirtæki nú verksmiðjur þar sem framleiddar eru ýmsar vörur sem áður voru merktar „Made in China“. Viðskipti á milli Kína og Afríku hafa tífaldast á liðnum áratug.