Vladimir Putin, forsætisráðherra Rússlands, sagði í viðtali við NTV-sjónvarpsstöðina í dag að hann saknaði Austur-Þýskalands. Putin var útsendari KGB í Dresden meðan kommúnistar réðu Austur-Þýskalandi.
Putin kvaðst eiga góðar minningar frá því hann var staðsettur í Dresden á árunum 1985-1990. Þar lærði hann þýsku, stundaði fjallaferðir og átti í samskiptum við austurþýska starfsfélaga.
„Ég man enn hlýjuna og alúðina,“ sagði Putin í viðtalinu. Það var tekið í tengslum við gerð heimildamyndar um fall Berlínarmúrsins fyrir tveimur áratugum. Helstu fjölmiðlar Rússlands fengu að birta glefsur úr viðtalinu.
Putin kvaðst vera þakklátur fyrir árin sem hann dvaldi í Austur-Þýskalandi og hann sagðist finna til nokkurs söknuðar. „En við sjáum nú hvernig sambandslýðveldið (hið sameinaða Þýskaland) er að þróast og við gleðjumst yfir því að eiga góð samskipti á nýjum grundvelli,“ sagði Putin. „Það setur allan söknuð vitanlega í annað sætið.“
Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Putin ræðir opinberlega um ár sín í leyniþjónustunni, en þau hafa verið hulu sveipuð. Putin sagði um ár sín í Austur-Þýskalandi að þau væru „ekki verstu árin í lífi mínu og ég myndi jafnvel segja að þau hafi verið góð ár.“