Sigur fyrir Obama

Örlög frumvarps Obama um breytingar á heilbrigðiskerfinu ráðast í öldungadeildinni.
Örlög frumvarps Obama um breytingar á heilbrigðiskerfinu ráðast í öldungadeildinni. KEVIN LAMARQUE

Fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti í nótt frumvarp Barcks Obama forseta um breytingar á heilbrigðiskerfinu. 220 þingmenn studdu frumvarpið en 215 greiddu atkvæði gegn því. Markmið frumvarpsins er að fleiri Bandaríkjamenn fái sjúkratryggingu.

Frumvarpið fer núna til öldungadeildarinnar sem þarf að samþykkja það áður en það getur orðið að lögum. Obama hefur lagt mikla áherslu á að ná fram breytingum í heilbrigðismálum. Hann sagði niðurstöðu fulltrúadeildarinnar sögulega og sagðist sannfærður um að öldungadeildin myndi samþykkja frumvarpið.

Almennt er talið að ef frumvarpið verði lögfest muni það leiða til mestu breytinga í heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna í áratugi. Búist er við að 36 milljónir manna sem ekki hafa sjúkratryggingu í dag fái hana verði frumvarpið að lögum. Þetta þýði að 96% Bandaríkjamanna verði sjúkratryggðir.

219 Demókratar studdu frumvarpið í fulltrúadeildinni og einn Repúblikani. 176 Repúblikanar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu og 39 Demókratar.

Hörð átök hafa verið um frumvarpið. Stuðningsmenn og andstæðingar þess hafa beitt sér af krafti í fjölmiðlum og á götum úti. Andstæðingar frumvarpsins efndu til mótmælagangna víða um Bandaríkin og stuðningsmenn Obama hafa einnig látið vel í sér heyra.

Einn af þingmönnum Demókrata í fulltrúadeildinni, John Dingell sagði þegar niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá fyrir: "Með þessu frumvarpi þarf enginn, hvernig svo sem heilsa hans er, að hafa áhyggjur af því að hann geti ekki fengið sjúkratryggingu á viðráðanlegu verði."

Candice Miller, þingmaður Repúblikana, lítur á frumvarpið allt öðrum augum: "Við komu til með að sjá allsherjar yfirtöku ríkisins á heilbrigðiskerfinu og það mun gerast hraðar en þér tekst að segja: "Þetta veldur mér ógleði.""

Obama tók virkan þátt í því að tryggja frumvarpinu stuðning. Hann mætti sjálfur í þinghúsið í gær til að þrýsta á þingmenn Demókrataflokksins að styðja frumvarpið, en óvenjulegt er að forseti Bandaríkjanna beiti sér með þeim hætti. Að lokinn atkvæðagreiðslunni sagði Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrataflokksins í fulltrúadeildinni að stuðningur Obama hefði ráðið úrslitum um að tekist hefði að tryggja frumvarpinu nægjanlegs stuðnings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert