Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í morgun, að sameiningu Þýskalands væri enn ekki lokið þótt 20 ár séu í dag liðin frá falli Berlínarmúrsins. Lífsgæði í austurhluta landsins eru enn lakari en í vesturhlutanum.
„Við verðum að leysa þetta vandamál ef við viljum að lífsgæðin verði jöfn," sagði Merkel í viðtali við þýsku sjónvarpsstöðina ARD. Hún benti á að atvinnuleysi sé enn tvöfalt meira í austurhluta Þýskalands en í vesturhlutanum.
Merkel, sem sjálf ólst upp í Austur-Þýskalandi, tekur í dag á móti þjóðarleiðtogum í Berlín þar sem þess er minnst í dag að rétt 20 ár eru liðin frá því austur-þýsk yfirvöld opnuðu landamærastöðvar við Berlínarmúrinn. Meðal gesta verða Gordon Brown, forsætisráðherra Bretla, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands og Dmitrí Medvedev, forseti Rússlands.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom til Berlínar í gær og verður viðstödd hátíðarhöldin við Brandenborgarhliðið. Þar verða einnig Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna, og Lech Walesa, fyrrverandi forseti Póllands.
Clinton hélt ræðu í Berlí í gærkvöldi og hvatti til nýs átaks landanna beggja vegna Atlantshafs til að frelsa þá sem enn sæta kúgun.
„Sögu okkar lauk ekki kvöldið sem múrinn féll," sagði hún. „Við getum ekki þolað að kúgun, sem er skilgreind og réttlætt með trúarbrögðum eða þjóðerni, komi í stað hugmyndafræði kommúnismans."