Rekinn fyrir að benda á spillingu

Moskva
Moskva Reuters

Rússneskum lögreglumanni var nýverið sagt upp störfum vegna ærumeiðinga í kjölfar þess að hann setti inn á vef YouTube myndband þar sem hann fullyrðir að viðvarandi spilling eigi sér stað innan lögreglunnar. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
 
Alexei Dymovsky, 32 ára gamall majór, hélt því fram á myndbandsupptökunni að yfirmenn lögreglunnar í bænum Novorossiisk hóti undirmönnum sínum og panti ítrekað tilteknar rannsóknarniðurstöður mála. Jafnframt kvartaði hann yfir lélegum vinnuskilyrðum og lágu kaupi. Hann óskaði einnig eftir því að ræða þessi mál á fundi með Vladimir Pútín, forsætisráðherra landsins.

„Ég er þreyttur á því að vera sífellt neyddur til þess að rannsaka glæpi sem ekki hafa verið framdir. Ég er þreyttur á fyrirskipunum um að tiltekið fólk verði að senda í fangelsi,“ segir Dymovsky m.a. í sjö mínútna myndbandsupptöku sem hann birti bæði á eigin vefsvæði og á YouTube.

Vladimir Grebenyuk, yfirmaður lögreglunnar í Novorossiisk, vísar ásökunum majórsins á bug og segir ekki standa stein yfir steini í ásökunum hans. Að sögn Valery Gribakin, talsmanns lögreglunnar, var tveimur dögum varið í að rannsaka ásakanir majórsins.  „Ekkert kom út úr þeirri rannsókn og í framhaldinu var ákveðið að stefna Dymovsky fyrir ærumeiðingar,“ er haft eftir Gribakin.

Stjórnvöld í Rússlandi hafa viðurkennt að spilling sé vandamál innan lögreglunnar í landinu. „Starfsmenn lögreglunnar fá ekki nægilega há laun og þess vegna fáum við ekki eins gott fólk til starf og æskilegt væri,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir ónefndum talsmanni rússneska innanríkisráðuneytisins.

„Sumir þeirra sem koma til starfa í lögreglunni kunna ekki skil á grundvallaratriðum réttarríkisins og umgangast meira að segja glæpamenn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert