Afmælisveisla til heiðurs Mikhail Kalashnikov níræðum var haldin í Kreml í dag. Kalashnikov er frægastur fyrir að hafa hannað AK-47 hríðskotariffilinn. Varla hafa orðið svo skærur eða stríð síðustu áratugina að AK-47 hafi ekki komið þar við sögu.
Uppfinning Kalashnikovs á sér blóði drifna 60 ára sögu - í bókstaflegri merkingu. Kalashnikov er álitinn vera þjóðhetja í Rússlandi. Dmitri Medvedev forseti Rússlands hélt veislu honum til heiðurs í dag og sæmdi afmælisbarnið orðunni Hetja Rússlands.
Medvedev sagði m.a. í ávarpi sínu: „Það er ekki oft sem við sjáum dæmi þess sem þú hefur skapað - þá meina ég ekki bara Kalashnikov riffilinn heldur að hann er þjóðlegt vörumerki sem vekur stolt í hjörtum allra Rússa og þá tilfinningu að vera hluti af sögunni og þá ósk að vinna framtíðinni til heilla.“
Kalashnikov fæddist í þorpi í Síberíu. Hann var einn 19 systkina en einungis átta af þeim komust til manns. Hann þjónaði sem skriðdrekaekill í sovéska hernum og fann þá upp tæki sem taldi skotin sem hann skaut úr fallbyssu skriðdrekans.
Kalashnikov særðist í seinni heimsstyrjöldinni. Meðan hann lá á sjúkrabeði og náði sér af meiðslunum fann hann upp hríðskotariffilinn sem hefur gert nafn hans frægt. Hann var ekki verkfræðimenntaður en var ljóst að vopnið þurfti að vera einfalt að gerð og auðvelt í notkun.
Kalashnikov sagði: „Það er þúsund sinnum erfiðara að finna upp eitthvað sem er einfalt en það sem er flókið, en ég varð að gera þetta því hermennirnir okkara fara ekki í háskóla. Þetta verður að vera einfalt í notkun og handhægt.“
Sovéski herinn fór að nota riffil Kalashnikovs árið 1949. Næstu 60 árin fann hann upp ótal útgáfur af hríðskotarifflinum. Kalashnikov starfaði í vopnaverksmiðju í hinni sögufrægu borg Izhevsk - þar sem er fjöldi byssusmiða.
Verksmiðjan var sú fyrsta sem fjöldaframleiddi AK-47 hríðskotarifflana. Í framhaldinu voru margar aðrar gerðir handvopna fundnar upp og smíðaðar. Margir draga með réttu í efa hve mikið gott hlaust af uppfinningu Kalashnikovs en ljóst er að hún olli straumhvörfum víða í heiminum.