Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, leiddi minningarathöfn í dag um þau þrettán sem féllu í skotárásinni í Fort Hood herstöðinni. Hann sagði að engin trúarbrögð gætu réttlætt jafn lyddulega morðárás og þar var framin.
Obama hitti syrgjandi ættingja hinna föllnu og mælti til þeirra huggunarorð áður en hann ávarpaði um 15 þúsund hermenn og fjölskyldur þeirra í dag.
„Það getur verið erfitt að skilja þau rangsnúnu rök sem leiddu til þessa harmleiks. En svo mikið vitum við að engin trúarbrögð réttlæta þetta huglausa morðæði, enginn réttlátur og elskandi Guð lítur það með velþóknun.
Við vitum að morðinginn mun mæta réttlætinu í þessum heimi og hinum komandi fyrir það sem hann gerði,“ sagði Obama.
Forsetinn og forsetafrúin vottuðu hermönnunum tólf og einum óbreyttum borgara sem féllu í skotárásinni virðingu sína. Þau lásu stutt persónulegt ágrip um hvert og eitt hinna látnu.
Hjálmum hinna föllnu var stillt upp á vopn þeirra. Þar við var mynd af hverjum og einum sem féll og skórnir hans.