Umhverfisráðherra Indlands segir engar vísindalegar sannanir fyrir því að bráðnun jökla í Himalaya séu af völdum hlýnunar jarðar.
„Það eru engar afgerandi vísindlegar sannanir sem tengja saman hlýnun jarðar og jökla Himalaya,“ hefur viðskiptadagblaðið Live Mint eftir Jairam Ramesh, umhverfisráðherra Indlands.
Ramesh lét fyrr í vikunni gefa út rannsókn á jöklum Himalaya sem dregur í efa niðurstöður Loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (Intergovernmental Panel on Climate Change skamstafað IPCC), en nefndin er ein sú virtasta á þessu sviði.
IPCC hefur varað við því að að jöklar Himalaya hopi hraðar en þekkist í öðrum heimshlutum og gætu „alfarið verið horfnir árið 2035 ef ekki fyrr.“
„Staða jökla í Himalaya er slæm, en samkvæmt rannsókninni þá eru dómadagsspár IPCC og Al Gore fjarri lagi,“ segir Ramesh og vísar þar til fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna sem beitt hefur sér í baráttunni gegn loftlagsbreytingum.
Ramesh viðurkennir að nokkrir jöklar væru að hopa, en segir hraða þeirrar þróunar ekki vera „neitt sögulega“ líkt og forsvarsmenn IPCC hafi haldið fram.
„Það er ekkert óeðlilegt við þróun indverskra jökla,“ segir Vijay Kumar Raina, jarðfræðingur og höfundur rannsóknarinnar sem Ramesh lét gefa út. „Jöklarnir hopa vegna þess að massi þeirra er neikvæður. Það eru engar sannanir fyrir því að hlýnun jarðar valdi því,“ lætur Raina hafa eftir sér í dagblaðinu Hindustan Times.
IPCC hefur varað við því að ár þær sem eiga upptök sín undir jöklinum geti þornað upp á næstu árum með skelfilegum afleiðingum, því hundruðir milljóna íbúa í norðurhluta Indlands eru háðar þessum uppsprettum.