Danmörk bauð í dag 191 þjóðarleiðtoga til fundar um loftslagsmál á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember. Hefur Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, sent viðkomandi ríkjum boðsbréf gegnum sendiráð Dana víðsvegar um heim.
Er þjóðarleiðtogunum boðið að taka þátt í loftslagsráðstefnunni 17. og 18. desember en þar á að fjalla um samkomulag sem taki við af Kyoto-sáttmálanum svonefnda þar sem sett voru markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.
Þegar hafa um 40 þjóðarleiðtogar lýst því yfir, að þeir muni koma til Kaupmannahafnar, þar á meðal Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands og Angela Merkel, kanslari Þýskalands.