Gangi hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna í Danmörku eftir verður afgangs bóluefni gegn svínaflensu selt borgurum landsins til afnota. Þetta er meðal þeirra tillagna sem er að finna í nýkynntu fjárlagafrumvarpi dönsku ríkisstjórnarinnar sem loksins leit dagsins ljós í dag eftir margra daga sáttaumleitanir milli stjórnarflokkanna og Danska þjóðarflokksins. Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Politiken.
Alls hafa dönsk stjórnvöld keypt 3,1 milljón skammta af bóluefni, en íbúar landsins eru í kringum 5,5 milljón manns. Markmiðið er að bólusetja íbúa í þremur áföngum, 1. nóvember, 1. desember og 1. janúar. Þegar er byrjað að bólusetja fyrsta hópinn, en þeim sem bauðst bólusetning voru einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma og heilbrigðisstarfsfólk. Í framhaldinu verður hugað að því að bólusetja fólk sem gegnir mikilvægum hlutverkum í samfélaginu.
Enginn veit hins vegar hversu margir hyggjast þiggja bólusetningu á næstu vikum þegar von á að bóluefninu til landsins í smáum skömmtum. Stjórnmálamenn óttast að aðsókn í bólusetningu verði ekki næg í hópi þeirra sem teljast til forgangs. Til þess að forðast það að sitja uppi með ónotað bóluefni vilja stjórnarflokkarnir gefa almenningi tækifæri á því að kaupa sér bólusetningu þegar ljóst er hversu mikið verður afgangs.