Valdamestu menn heims

Barack Obama
Barack Obama JIM YOUNG

Foringi eiturlyfjahrings í Mexíkó hefur ratað inn á lista Forbes yfir voldugasta fólk í heimi. Joaquin „Chapo“ (sem þýðir sá litli) Guzman, sem stýrir hinum alræmda  Sinaloa-eiturlyfjahring, lendir í 41 sæti listans og skákar þar með þjóðarleiðtogum á borð við Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og Dmítry Medvedev Rússlandsforseta.

Í nýjasta tölublaði tímaritsins Forbes kemur fram að Guzman hafi haldið utan um eiturlyfjainnflutning frá Mexíkó til Bandaríkjanna á sl. átta árum sem nemur að andvirði 6-19 milljarðar bandaríkjadala. Hann er talinn notast við undirgöng sem grafin hafa verið á landamærum landanna tveggja. Hann er talinn bera ábyrgð á þúsundum dauðsfalla í tengslum við glæpastarfsemi sína.

Guzman var handtekinn árið 1993 vegna ásakana um morð og fíkniefnasölu, en sleppt úr haldi lögreglunnar árið 2001.

Efstir á lista Forbes yfir voldugasta menn heims eru Barack Obama Bandaríkjaforseti, Hu Jintao forseti Kína og  Vladímír Pútín forsætisráðherra Rússlands.

Alls eru 67 manns á listanum og á honum má finna stjórnmálamenn, milljarðamæringa og trúarleiðtoga á borð við Benedikt páfa sextánda, sem ratar inn á 11. sæti listans næstur á eftir William Gates stofnanda Microsoft og Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu.

Osama bin Laden lendir í 37. sæti og Ayatollah Ali Khamenei aðalleiðtogi Írans í 40. sæti. Fyrrnefndur Medvedev er í 43. sæti, Sarkozy í því 56. og Hugo Chavez forseti Venesúela lendir í neðsta sæti listans.

Ekki margar konur rata inn á listann. Þær sem efst lenda eru annars vegar Angela Merkel Þýskalandskanslari sem er í 15. sæti og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna í 17. sæti. 

Nicolas Sarkozy og Hu Jintao
Nicolas Sarkozy og Hu Jintao AP
Pútín og Medvedev
Pútín og Medvedev Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert