Rándýr úr, veski eftir fræga hönnuði og jakki með merki bandaríska hafnaboltaliðsins New York Metz eru á meðal muna, sem voru í eigu svikahrappsins Bernards Madoffs og eiginkonu hans, sem verða boðnir upp og seldir hæstbjóðanda á uppboði um helgina.
Bandarísk yfirvöld vonast til þess að almenningur muni bjóða hátt verð í fyrrum eigum Madoffs, sem yfirvöld lögðu hald á og voru síðan gerðar upptækar.
Uppboðið fer fram á Sheraton hótelinu í New York. Allur ágóðinn mun renna í sérstakan sjóð sem verður notaður til að greiða fórnarlömbum Madoffs auk þess sem hluti mun renna til löggæslumála.
Munina var að finna á heimili Madoffs í Montauk á Long Island og einnig í þakíbúð hans á Manhattan.
Fram kemur á fréttavef Reuters að þetta verði fyrsta uppboðið af mörgum. Þá segir að menn hafi sýnt eigum kaupsýslumannsins mikinn áhuga og er búist við fjölmenni á morgun.
Fjársvikarin Bernard Madoff var nýlega dæmdur í 150 ára fangelsi fyrir eitt umfangsmesta fjársvikamál allra tíma.