Grænlandsjökull bráðnar hraðar en áður

Nýjar rannsóknir sýna að Grænlandsjökull bráðnar hraðar en áður, sem svo aftur hefur áhrif á hækkun yfirborðs sjávar. Rannsóknin, sem birt er í vísindatímaritinu Science, veitir vísindamönnum betri innsýn í það af hverju ísinn bráðnar svo hratt. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Rannsakendur studdust við veðurathuganir, gögn úr gervihnattasendum og líkan sem hermdi eftir hreyfingum ísbreiðunnar til þess að greina hvers vegna 273 þúsund milljón tonn af ís hverfi á ári hverju.

Árið 2007 kom út skýrsla á vegum Loftlagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) þar sem því var spáð að sjávarborð muni hækka um 28-43 cm á þessari öld.

„Þetta er þýðingamikil rannsókn og niðurstöðurnar eru mjög mikilvægar og nýjar,“ segir Roger Barry, forstjóri Heimsmiðstöðvar um jöklafræði við Háskólann í  Colorado í Bandaríkjunum.

„Hún sýnir hröðun í bráðnun íssins og að sjávarborð muni hækka hraðar en ella. Séu tölurnar framreiknaðar verða þær mun hærri en það sem Loftlagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) áætlaði að það yrði árið 2100,“ segir Barry sem ritstýrði þeim hluta skýrslu IPCC frá 2007 sem fjallaði um heimskautin.

Bráðni allur Grænlandsjökull myndi það hækka sjávarborð jarðar um heila 7 metra.

Á árabilinu 2000-2008 hafði bráðnun Grænlandsjökuls þau áhrif að sjávarborð heims hækkaði um 0,46 mm á ári, en síðan 2006 hefur hækkunin verið 0,75 mm á ári.

„Frá árinu 2000 hefur hröðun einkennt bráðnun íssins,“ segir Michiel van den Broeke frá Utrecht háskólanum í Hollandi, en hann hafði yfirumsjón með rannsókninni.

„Þess ber að geta að síðustu þrjú sumur hafa verið óvenju hlý og það hefur töluverð áhrif á hversu hratt ísinn bráðnar. Haldi þessi þróun áfram, sem ég get ekki bráð fyrr um en við búumst að sjálfsögðu við áframhaldandi hlýnun jarðar í framtíðinni.“

Alls hækkar sjávarborð um 3 mm ári, fyrst og fremst vegna þess að sjór þenst út þegar hann hitnar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka