Óttast veikindi björgunarmanna

Tvíburaturnarnir í New York jöfnuðust við jörðu í hryðjuverkaárásunum þann …
Tvíburaturnarnir í New York jöfnuðust við jörðu í hryðjuverkaárásunum þann 11. september árið 2001. Reuters

Hryðjuverkaárásin 11. september 2001 getur hugsanlega haft afleiðingar langt inn í framtíðina. Fjöldi dauðsfalla í hópi þeirra lögreglu- og slökkviliðsmanna sem þátt tóku í björgunaraðgerðum í rústum tvíburaturnanna hefur leitt til þess að menn óttast að stór hópur Bandaríkjamanna muni deyja úr krabbameini á næstu árum.

Fimm lögreglu- og slökkviliðsmenn, sem störfuðu í rústum turnanna tveggja, hafa látist á síðustu þremur mánuðum. Allir voru þeir  á aldrinum 37-44 ár þegar létust. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken.

Talsmaður samtakanna 911 hjálparsamtök lögreglumanna, sem starfar í þágu lögreglumanna sem veikst hafa , upplýsir í samtali við breska dagblaðið Guardian að samtökin aðstoði nú rúmlega 100 lögreglumenn sem störfuðu í rústum turnanna og greinst hafa með krabbamein.

Þeirra á meðal er Michael Valentin, sem eyddi fjórum mánuðum við vinnu í rústum tvíburaturnanna. Hann er með eitlakrabbamein og þjáist auk þess að asbesteitrun.

„Við erum öll lífshættulega veik og munum öll deyja. Okkur langar aðeins að hjálpa öðrum og sýna þeim að þeir séu ekki einir,“ segir Valentin, sem starfar nú sem sjálfboðaliði hjá 911 hjálparsamtökum lögreglumanna.

Claire Calladine, starfrækir samtökin 9/11 heilbrigði núna. Hún óttast að nýlegar fréttir af fjölda krabbameinstilfella í hópi þeirra sem störfuðu í rústunum sé bara byrjunin.

„Við höfum aðeins séð toppinn á ísjakanum. Því er hins vegar alveg ósvarað hversu stórt vandamál þetta verður,“ segir Calladine.

Fréttirnar af dauðsföllum þeirra sem unnu í rústunum berast á sama tíma og þrýst er á Bandaríkjaþing að samþykkja lög sem veiti þeim lögreglu- og slökkviliðsmönnum sem störfuðu í rústunum og nú hafa veikst aðstoð á vegum hins opinbera.

Vonir standa til þess að með samþykkt laganna verði hægt að stofna opinberan sjóð með 10 milljarða bandaríkjadala stofnfé, sem hefði það hlutverk að hjálpa þeim hundruðum björgunarmönnum sem nú glíma við krabbamein, öndunarfærasjúkdóma og aðra sjúkdóma vegna vinnu þeirra í rústunum á sínum tíma.

Allt að 70.000 manns tóku þátt í björgunaraðgerðunum á sínum tíma, þar á meðal voru lögreglumenn, slökkviliðsmenn og byggingaverkamenn sem buðu fram aðstoð sína á landsvísu og fóru sérstaklega til New York til þess að hjálpa til. Mánuðum saman vann þessi hópur manna við erfiðar aðstæður í rykmekki sem fullur var alls kyns hættulegum efnum.

Ekki aðeins var um að ræða 1,8 milljón tonn af múrbroti og 90.000 lítrar af flugvélaeldsneyti frá flugvélunum tveimur sem flugu á turnana heldur var líka um 1.000 tonn af asbesti sem notað hafði verið í byggingarnar sem hrundu.

Ekki eru til neinar opinberar tölur um fjölda þeirra hjálparstarfsmanna sem veikst hafa í kjölfar starfa sinna í rústum turnanna.



Ground Zero þar sem tvíburaturnarnir stóðu í New York.
Ground Zero þar sem tvíburaturnarnir stóðu í New York. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert