Foreldrarnir hafa báðir játað svindlið

Foreldar loftbelgsdrengsins í Colorado í Bandaríkjunum eiga yfir höfði sér fangelsisdóm en þau hafa bæði játað að hafa vitað að drengurinn væri ekki um borð í loftbelgnum heldur í felum heima hjá sér. Fjölmiðlar um allan heim fylgdust með ferðalagi loftbelgsins í síðasta mánuði en ekki kom í ljós fyrr en hann var lentur að drengurinn var ekki um borð líkt og óttast var.

Óttast var að drengurinn, Falcon Heene sex ára, hefði klifrað upp í heimatilbúinn loftbelg, sem síðan losnaði og flaug af stað í mikilli hæð og á miklum hraða. Í ljós kom hins vegar, að drengurinn var ekki í loftbelgnum heldur hafði hann falið sig í bílskúr við heimili sitt.

Í síðasta mánuði játaði móðir piltsins, Mayumi Heene, að þau hafi vitað af því að drengurinn væri ekki um borð en þau hafi viljað fá athygli raunveruleikaþáttar á sér. Faðirinn, Richard Heene, kom síðan fyrir héraðsdómara í gær þar sem hann játaði svikin.

Í málsskjölunum segir, að Mayumi og Richard Heene hafi skipulagt blekkinguna hálfum mánuði áður. 

Verður málið tekið fyrir þann 23. desember nk. Ef sátt næst við ákæruvaldið þá á faðirinn yfir höfði sér 90 daga fangelsi, skilorð í lengri tíma og sekt. Mayumi Heene gæti átt yfir höfði sér 60 daga fangelsisdóm en líklegt þykir að hún þurfi að gegna samfélagsþjónustu og fái einnig skilorðsbundinn dóm.

Richard Heene þarf væntanlega að greiða fyrir kostnað lögreglunnar við eltingaleikinn við loftbelginn sem hleypur á tugum þúsunda Bandaríkjadala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert