Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Hamid Karzai, forseti Afganistans, verði að setja á fót sérstakan dómstól sem fjalli um meiriháttar glæpi í landinu. Auk þess verði hann að setja saman sérstaka nefnd sem hafi það verkefni að berjast gegn spillingu.
Clinton sagði í viðtali hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC að Karzai geti „staðið sig betur“. Mjög er þrýst á að Karzai taki á spillingarmálum, en hann var nýverið endurkjörinn forseti landsins. Ásakanir um kosningasvik vörpuðu hins vegar skugga á kosningarnar og úrslitin.
Talsmaður forsetans segir að ríkisstjórn Afganistans sé alvara í því að útrýma spillingu í landinu.