Segja fangelsi Bandaríkjamanna uppeldistöð Al-Qaida

Frá Bucca fangelsinu í Írak
Frá Bucca fangelsinu í Írak Reuters

Fangelsið Bucca í Írak, sem rekið var af Bandaríkjastjórn, var uppeldisstöð fyrir liðsmenn Al-Qaida, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu  og fyrrum föngum í fangelsinu. Alls var yfir 100 þúsund föngum haldið þar í rúm sex ár.

Bucca fangelsið, sem er í eyðimörkinni norður af landamærum Kúveit, var sett upp eftir innrás Bandaríkjamanna árið 2003 Um 22 þúsund fangar voru þar samtímis árið 2007. Fangelsinu var lokað þann 17. september sl. en þá voru fangarnir þar einungis 8 þúsund talsins. Þeir voru fluttir í Cropper fangelsið í Bagdad og Taji fangelsið sem er norður af höfuðborginni.

Abu Mohammed, sem var látinn laus úr fangelsinu á síðasta ári eftir að hafa verið haldið þar í 26 mánuði, segir að þeir fangar sem voru öfgatrúar hafi flestir endað í Al-Qaida hryðjuverkasamtökunum eftir dvöl í fangelsinu þrátt fyrir að hafa ekki tengst þeim fyrir fangelsisdvölina.

Samkvæmt upplýsingum frá íraska innanríkisráðuneytinu voru sjálfsvígtilræðismennirnir sem sprengdu sig í loft upp á tveimur stöðum í Bagdad þann 19. ágúst sl. fyrrum fangar í Bucca.  Þeir voru látnir lausir skömmu fyrir tilræðin sem kostuðu 95 manns lífið. Þeir sem hafa verið handteknir vegna tilræðanna eru flestir fyrrum fangar í Bucca.

Svipað virðist vera uppi á tengingnum varðandi tilræðin þann 25. október sem kostuðu 153 lífið. Alls hafa 73 verið handteknir í tengslum við þau tilræði og eru það allt fyrrum fangar í Bucca.

Brad Kimberly, talsmaður bandarískra fangelsisyfirvalda í Írak, sagði í samtali við AFP að þeir hafi ekki fengið neinar upplýsingar um að fyrrum fangar Bandaríkjamanna tengist árásunum.

Fyrrum fangar sem AFP fréttastofan ræddi við segja hins vegar að í Bucca hafi herskáir íslamistar (Takfiris) séð um að uppfræða nýliðana í fangelsinu svo þeir hafi endað jafn öfgafullir og leiðtogar þeirra í fangelsinu, að sögn Haj Ahmad sem var í fangelsinu í fjögur ár. 

Hann segir að það sem hafi komið mest á óvart hafi verið að Bandaríkjamenn hafi sleppt þeim út eftir að þeir voru orðnir uppfullir af hugmyndafræði herskárra múslima og voru tilbúnir til að fremja morð. Enda hafi þeir flestir gengið til liðs við Al-Qaida eftir dvölina í fangelsinu. 

Abu Mohammed, 35 ára verkamaður sem var handtekinn í kjölfar sprengjutilræða í Samarra í febrúar 2006, segir svipaða sögu  úr fangelsinu. Hann segir að liðsmenn Takfiris hafi helst horft til fanga sem voru liðlega tvítugir. Þeir hafi boðið þá velkomna og spurt þá vingjarnlega um hvers vegna þeir hafi verið handteknir. Tengsl þeirra við trúna og fleira þessu líkt segir Mohammed sem var haldið í Bucca í þrjú ár. Síðan hafi fræðslan tekið við. Þeir hvattir til að safna skeggi og klæða sig samkvæmt trúnni.

Abu Yasser, kennari sem var einnig handtekinn í Samarra, segist þess fullviss að Bandríkjamenn hafi vitað um heilaþvott Al-Qaida liða í fangelsinu.  Liðsmenn Al-Qaeda voru vanir að koma nýliðunum í skilning um að ef þeir fremdu sjálfsvígstilræði þá myndu þeir enda í himnaríki. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert