Að hneigja sig eða hneigja sig ekki

Barack Obama hneygir sig djúpt fyrir Akihito Japanskeisara.
Barack Obama hneygir sig djúpt fyrir Akihito Japanskeisara. Reuters

Myndir, sem sýna Barack Obama, Bandaríkjaforseta hneigja sig djúpt fyrir Akihito Japansforseta fyrir helgina, hafa vakið talsvert uppnám meðal gagnrýnenda forsetans heimafyrir. Segja þeir að forsetinn eigi ekki að beygja sig fyrir erlendum þjóðhöfðingjum.

Obama er nú í ferð um Asíu en hann kom til Japans á föstudag. Hneiging Obama fyrir Japanskeisara var aðalumræðuefnið í mörgum spjallþáttum í bandarískum sjónvarpsstöðum í gær og á bloggsíðum netsins og veltu menn því fyrir sér hvort forsetinn hefði orðið sér og bandarísku þjóðinni í heild til minnkunar.  

„Ég skil ekki hvers vegna Obama forseta fannst þetta vera viðeigandi," sagði William Kristol í þætti í sjónvarpsstöðinni Fox í gærkvöldi. „Kannski hélt forsetinn að þetta myndi mælast vel fyrir í Japan. En það er ekki við hæfi að bandarískur forseti hneigi sig fyrir erlendum þjóðhöfðingja," sagði Kristol og bætti við að þetta endurspeglaði hvað Bandaríkin væru orðin veikburða undir stjórn Obama. 

Annar íhaldsmaður, Bill Bennett, sagði í þættinum State of the Union á CNN: „Þetta er ljótt, ég vil ekki horfa á það. Við lútum ekki keisurum eða kóngum."

Í sumum þáttum var einnig sýnd mynd af Dick Cheney, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem heilsaði Japanskeisara árið 2007 með handabandi en hneigði sig ekki.  Einnig var vísað til þess, að Obama hefði hneigt sig fyrir Abdullah konungi Sádi-Arabíu á fundi G20 ríkjaanna í apríl.

Umfjöllunin um hneigingu Obamas var almennt neikvæð vestanhafs en nokkrir stjórnmálaskýrendur tóku þó upp hanskann fyrir forsetann, þar á meðal Donna Brazile.

„Mér finnst þetta lýsa velvilja," sagði hún við CNN og bætti við að hneigingunni virtist ætlað að sýna fram á velvilja tveggja þjóða sem virða hvor aðra.

Þá sagði ónafngreindur embættismaður, að Obama hefði aðeins verið að fylgja siðareglum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert