Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu, baðst í morgun formlega afsökunar fyrir hönd ástralskra stjórnvalda á því að um hálf milljón Ástrala sætti kynferðislegu ofbeldi og vinnuþrælkun á barnaheimilum um áratuga skeið á síðustu öld.
Um þúsund manns voru í sal ástralska þingsins þegar haldin var sérstök athöfn á vegum stjórnvalda. Margir grétu þegar Rudd lýsti þeirri meðferð, sem fólk sætti á munaðarleysingjahælum og öðrum vistheimilum á árunum frá 1930 til 1970.
Rudd sagði, að fyrir hönd áströlsku þjóðarinnar vildi hann biðjast afsökunar á því að börn hefðu verið tekin frá fjölskyldum sínum og vistuð á stofnunum þar sem þau sættu oft misþyrmingum. „Ég biðst afsökunar á líkamlegum og andlegum þjáningum sem þið sættuð og hinu kalda og ástlausa viðmóti sem þið mættuð. Og ég biðst afsökunar á þeim harmleik, þeim algera harmleik, að þið voruð svipt barnæskunni," sagði Rudd.
Á síðasta ári baðst Rudd frumbyggja Ástrala afsökunar á þeirri meðferð, sem þeir hefðu sætt frá því hvítir menn settust að í Ástalíu árið 1788.