Eintak af blaðinu Dallas Morning News frá 22. nóvember 1963, með eiginhandaráritun John F. Kennedys, þáverandi Bandaríkjaforseta, seldist á uppboði í síðustu viku á 39 þúsund dali, jafnvirði 4,9 milljóna króna. Talið er að þetta sé síðasta eiginhandaráritunin sem forsetinn gaf en hann var skotinn til bana í Dallas síðar sama dag.
Kona, sem var í mannþrönginni þegar forsetinn kom til Dallas, rétti honum blaðið og Kennedy skrifaði nafnið sitt á það við hliðina á dagsetningunni. Tveimur tímum síðar var forsetinn myrtur.
Kaupsýslumaðurinn Joe Maddalena keypti blaðið á uppboðinu en hann stýrir einnig safni í Calabassas í Kalíforníu. Sjónvarpsstöðin CNN hafði eftir Maddalena, að hann hefði gert reyfarakaup.
Á uppboðinu var einnig til sölu grár hattur, sem næturklúbbaeigandinn Jack Ruby bar þegar hann skaut Lee Harvey Oswald, manninn sem myrti Kennedy. Hatturinn seldist fyrir 53.775 dali, jafnvirði 6,7 milljóna króna.