Innanríkisráðuneyti Ísraels hefur lagt blessun sína yfir að 900 hús verði reist á landnemabyggð gyðinga í Austur-Jerúsalem. Skipulags- og bygginganefnd landsins gaf út leyfi fyrir því að Gilo verði stækkað, en um er að ræða landssvæði sem Ísraelar hertóku árið 1967.
Framkvæmdirnar eru þó enn til skoðunar og almenningi gefst tækifæri á að koma athugasemdum á framfæri.
Samkvæmt alþjóðlegum lögum eru landnemabyggðir á hernumdu svæði ólöglegar. Ísraelar halda hins vegar öðru fram.
Ísraelskir fjölmiðlar hafa greint frá því að ísraelsk stjórnvöld hafi hafnað beiðni bandarískra yfirvalda um að stöðva allar framkvæmdir á Gilo.
George Mitchell, sendifulltrúi Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum, er sagður hafa komið þessu á framfæri við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, er þeir hittust á fundi í London á mánudag.