Sýknuð af ákæru fyrir að dreifa klámi

Blaðakona í Zambíu var í gær sýknuð af ákæru fyrir að dreifa klámi en konan sendi myndir til þarlendra stjórnmálamanna með tölvupósti af konu, sem eignaðist barn utan við sjúkrahús í höfuðborg landsins meðan á verkfalli lækna stóð. 

Blaðakonan heitir Chansa Kabwela og er fréttastjóri blaðsins The Post, eins áhrifamesta blaðs landsins. Kabwela átti yfir höfði sér 5 ára fangelsi, hefði hún verið fundin sek. Hefur málið vakið upp spurningar um frelsi fjölmiðla í Zambíu. 

Dómarinn sagði, að saksóknurum hefði ekki tekist að sanna mál sitt.  Hægt er að áfrýja dómnum til æðri dómstóla.  

Læknar í Zambíu fóru í hálfsmánaðar verkfall í júní. Kona í barnsnauð leitaði til sjúkrahúss í Lusaka, höfuðborg landsins, en var vísað á dyr. Hún eignaðist barnið síðan á bílastæði utan við sjúkrahúsið. Um var að ræða sitjandi fæðingu þar sem fætur barnsins komu á undan og það lifði ekki fæðinguna af. 

Fjölskylda konunnar sendi myndir af fæðingunni til Kabwela, sem taldi að þær væru ekki hæfar til að birta í blaðinu.  Hún áframsendi þær hins vegar með tölvupósti til George Kunda, varaforseta landsins, og ýmissa kvennasamtaka, og hvatti jafnframt til að gripið yrði til aðgerða til að stöðva verkfallið. 

Rupiah Banda, forseti landsins, sá síðan myndirnar og krafðist þess að Kabwela yrði handtekin og ákærð fyrir að dreifa klámefni. Slíkt er bannað með lögum í Zambíu og liggja við ströng viðurlög.

Fram kemur á fréttavef BBC, að Kabwela sé ekki í vafa um að hún hafi sætt pólitískum ofsóknum. The Post hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir spillingu og forsetinn hefur ekki leynt andúð sinni á blaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert