Breska dagblaðið The Times hyggst byrja að rukka fyrir efni á vefsíðu sinni næsta vor. Þetta segir ritstjóri blaðsins, hálfum mánuði eftir að Rupert Murdoch, eigandi blaðsins, greindi frá því að þetta gæti tafist fram í júní á næsta ári.
James Harding sagði á ráðstefnu dagblaðaritstjóra í gær að dagblöð verði að koma fólki í skilning um það að það verði að greiða fyrir verðmæta, og stundum ómetanlega, þjónustu, sem sé hluti af daglegu lífi fólks.
„Við ætlum að takast á við ókeypis-menninguna. Við höfum séð hana leggja tónlistariðnaðinn í rúst. Við höfum ekki efni á því, bæði sem fyrirtæki og samfélag, að leyfa þessu að gerast með fréttirnar,“ sagði Harding í ræðu sem hann flutti í gær.
„Frá og með næsta vori munu við byrja að rukka fyrir stafrænt efni á The Times,“ sagði hann á ráðstefnunni.
Hann segir að það sé ekki búið að taka endanlega ákvörðun hvað blaðið á netinu muni kosta.