Catherine Ashton, nýskipaður yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, tekur nú stórt stökk fram á við á sínum stjórnmálaferli. Hún fór á síðasta ári til Brüssel til að semja um bananainnflutning frá rómönsku Ameríku, og fríverslun við Kína og Bandaríkin.
Hún er meðlimur í bresku lávarðadeildinni og er barónessa af Upholland. Síðan hún fór til Brüssel hefur hún heillað embættismenn þar, að sögn viðmælanda AFP fréttastofunnar, upp úr skónum með því hvernig hún hefur náð tökum á störfum Framkvæmdastjórnarinnar á skömmum tíma.
„Á þeim tíma sem hún hefur verið hér, hefur hún komið mjög sterk inn. Hún er mjög virt hér,“ segir breskur embættismaður, sem spáir því að hún verði „ein af þeim stóru.“
Starfið sem nú er búið að skipa hana í er hins vegar ekkert smáræði. Því er ætlað að verða rödd hinnar margradda Evrópu út í hinn stóra heim, til jafns við Bandaríkin og rísandi stórveldin tvö, Kína og Indland.
Upholland er í Norðvesturhluta Englands, en þar er Ashton fædd árið 1956 og uppalin. Hún er menntuð í hagfræði frá háskólanum í London. Hún vann fyrir þrýstihópa og varð sex árum sem stjórnandi samtaka, sem hvöttu fyrirtæki til þess að koma á auknu jafnrétti og meiri fjölbreytni innan sinna veggja.
Hún var stjórnarformaður heilbrigðisyfirvalda í sýslu einni frá 1998 til 2001.
Hún var tilnefnd í efri deild breska þingsins, lávarðadeildina, árið 1999, af Verkamannaflokknum. Hún varð svo menntamálaráðherra árið 2001. Árið 2007 var hún útnefnd leiðtogi lávarðadeildarinnar árið 2007 og hafði eftir það yfirumsjón með ferli löggjafar í gegnum deildina. Á meðal verkefna sem hún hefur tekist á við er að koma Lissabon-sáttmálanum í gegnum þingið, en hann er grundvöllur hins nýja og endurbætta embætti sem hún tekur nú við hjá Evrópusambandinu.
Þegar Peter Mandelson hætti hjá Framkvæmdastjórninni árið 2008, og sneri aftur til Bretlands til að taka ráðherrastól var sagt frá því að Gordon Brown hefði verið beðinn um að senda konu í staðinn fyrir hann, til að bæta kynjahlutföllin. Þá var sagt að Brown hefði ekki viljað senda kjörinn fulltrúa á þinginu út, þar sem það hefði getað komið sér illa í stjórnmálunum heima við og þess vegna hafi hann snúið sér til Ashton, sem ekki er kosin í lávarðadeildina, heldur skipuð.
Ashton er gift Peter Kellner, stjórnmálaskýranda og forstjóra skoðanakannanafyrirtækisins YouGov. Hún á þrjú stjúpbörn og tvö börn.