Fjórtán ára gömul stúlka í Holen grunnskólanum í Osló þurfti að taka leigubíl heim úr skólanum í dag, eftir að hafa verið lögð í einelti af skólasystkinum sínum í dag.
Í dag hvetja óprúttnir menn á netinu til þess að haldinn sé vafasamur hátíðisdagur. Nefnilega dagur þess að sparka í rauðhærða, eða „kick a ginger day" eins og fyrirbærið er kallað á íslensku. Uppruni þess mun vera úr teiknimyndunum South Park, sem oft reyna að halda sig á mörkum þess birtingarhæfa.
Faðir stúlkunnar segir frá raunum hennar í viðtali við fréttavefinn bt.no í dag. Var henni hrint, hún lamin og sparkað í hana sífellt í skólanum í dag, þar til hún gat ekki meira og fór heim til sín með leigubíl. Faðir hennar, Nils Olav Nesse, segir hana nú í uppnámi og kvíða þess að fara aftur í skólann. Stúlkan er síðhærð og hár hennar hefur rauðleitan blæ.
„Hún hefur lengi sætt einelti, en í dag náði það hámarki," segir Nesse. „Ég skil ekki að fólk geti verið svona grimmt. Mér finnst það svo hryllilegt að ekki sé öllum boðið upp á hamingjusama æsku, segir móðir stúlkunnar, Mariann Lauritsen.
„Þetta eyðileggur fyrir henni skólagönguna. Hún sefur illa á nótunni og er þreytt. Hún kvíður því að fara í skólann. Svona ætti þetta ekki að vera. Hún á að vera örugg," segir Nesse. Þau velta því nú fyrir sér að færa dóttur sína úr skólanum annað. Eftir helgina ætla foreldrarnir að funda með skólastjóranum og kennurum.
„Nú vona ég að allir foreldrar geti tekið ábyrgð og unnið saman að því að leysa þetta vandamál, svo að einelti taki enda," segir Nesse.